Dagur 12, Víetnam


Advertisement
Asia
April 4th 2015
Published: April 6th 2015
Edit Blog Post

Nú var lagt af stað frá Kat Ba island til Hanoi, þaðan sem ætlunin var að fljúga aftur til Tælands. Ferðalagið var mjög tímafrekt og ævintýraríkt, þar sem við lögðum af stað 12 :30 og komum vorum komin á hótelið í Hanoi kl. 20.

Edit: Eftir komuna til Hai Phong tókum við rútu til Hanoi sem tók um tvo tíma. Þegar við komum á rútustöðina biðu leigubílstjórar sem vildu ólmir fá vestrænan ferðamann sem farþega. Við sömdum við einn þeirra um að ekið væri eftir gjaldmæli og lögðum af stað. Gjaldið á mælinum hækkaði það hratt að Sai fór að gruna að átt hefði verið við mælinn, líkt og tíðkast oft í Tælandi. Þegar verðið var komið upp í 350.000 dong áttaði ég mig á að þau 400.000 dong sem ég hafði meðferðis myndu trúlega ekki duga. Ég sýndi því bílstjóranum peninginn sem ég hafði og ætlaði að semja við hann um að keyra okkur á leiðarenda fyrir þann pening. Hann vildi það ekki og sagðist keyra eftir gjaldmæli. Ég bað hann þá um að stoppa bílinn um leið og mælirinn færi upp í 400.000 dong, enda hefði ég ekki meiri pening.
Hann hélt þó áfram, svo ég gerði ráð fyrir að hann ætlaði að láta okkur út við fyrsta mögulega tækifæri, enda vorum við á hraðbraut á þessum tímapunkti.
Enn hélt hann áfram framhjá bensínstöðvum og fleiri stöðum þar sem auðvelt hefði verið að stoppa. Ég benti honum á nálæga verslunarmiðstöð og sagði honum að stoppa þar, sem hann gerði ekki. Þarna var okkur ekki orðið sama og skipuðum honum að stoppa bílinn strax. Hann þóttist enn ekki skilja okkur en hringdi í enskumælandi vin sinn og lét mig tala við hann. Sá sagði einfaldlega að ekið væri eftir gjaldmæli og að nú væri gjaldið komið upp í 500.000 dong, svo 400.000 dong myndu ekki duga. Hann spurði því hvort ég hefði ekki greiðslukort, sem ég játaði, en gerði honum þó ljóst að ég vildi stoppa strax, enda hafði ég stöðugt beðið bílstjórann að stoppa síðustu 15 mínúturnar, eða allt frá því að mælirinn nálgaðist 400.000 dong. Enn hélt ég áfram að segja bílstjóranum að stoppa við nálæga banka, bensínstöðvar og verslunarmiðstöðvar, enda voru hraðbankar á öllum þessum stöðum, þar sem ég gæti tekið út meiri pening. Þetta ítrekaði ég við vin hans þegar ég var beðinn um að tala við hann. Bíllinn hélt þó áfram og við fórum að öskra á hann að stoppa, sem hann gerði loks á miðri hraðbraut, fjarri öllum hraðbönkum.
Við stigum bæði út úr bílnum en hann reyndi að koma í veg fyrir að við tækjum farangurinn okkar, sem tókst ekki.
Ég rétti honum 400.000 dong, sem hann tók ekki við og benti á að nú væri gjaldið komið upp í 580.000 dong. Ég sagði honum að mér væri nákvæmlega sama hvað mælirinn segði, enda hefði ég látið hann vita að við hefðum aðeins 400.000 dong, þegar mælirinn var í 350.000.
Ég vildi ekki ræða þetta neitt frekar, kastaði peningnum inn um gluggann á bílnum og við gengum af stað. Hann reyndi að grípa í Sai, en ég gerði honum ljóst að það skyldi hann ekki gera og við héldum áfram að ganga.
Hann ók á eftir okkur, svo ég ákvað að ganga á móti akstursstefnu, svo hann gæti ekki elt okkur.
Hann hafði fljótlega samband við mann á vespu sem elti okkur og hikaði ekki við að keyra á móti umferð á hraðbraut. Ég ákvað því að klifra yfir vegrið svo hann gæti ekki elt okkur.
Eftir það reyndum við að fara aftur upp á hraðbrautina en vorum ekki heppnari en svo að mæta lögreglubíl sem var í vegkanntinum og leit út fyrir að vinur leigubílstjórans væri þar líka. Við snerum því við um leið og við sáum lögregluna og földum okkur á akri og í nálægum kirkjugarði í smá stund.
Því næst gengum við eftir sveitavegum og stígum í gegnum votlendi til að komast framhjá lögreglubílnum og aftur upp á hraðbrautina og vorum heppin að rekast ekki á snáka á leiðinni.
Þetta gekk og eftir nokkra göngu fundum við hraðbanka, þar sem við tókum út 3.000.000 dong og tókum svo rútu á flugvöllinn. Þaðan gengum við um 2 km á hótelið og vorum fegin að geta slakað þar á eftir ferðalag dagsins.


Advertisement



6th April 2015

Þetta hefur greinilega verið afar ævintýraríkt ferðalag ef marka má lengd frásagnarinnar. Eða voru ævintýrafrásagnirnar ekki prenthæfar?
7th April 2015

Þetta var jú mjög ævintýralegur dagur en vegna efnis frásagnarinnar taldi ég ekki skynsamlegt að birta hana opinberlega á þessum tímapunkti, því þrátt fyrir slaka íslenskukunnáttu Víetnama, þá væri aldrei að vita nema einhver fengi þá flugu í höfuðið að þýða þessa frásögn með hjálp Google translate.

Tot: 0.12s; Tpl: 0.01s; cc: 7; qc: 43; dbt: 0.0628s; 1; m:domysql w:travelblog (10.17.0.13); sld: 1; ; mem: 1.1mb